
English below
Markmiðið með Þingeyraverkefninu er að rannsaka Þingeyrar í Húnaþingi sem menningar- og valdamiðstöð í lengri tíma. Talið er að Húnavatnsþing hafi verið haldið á þar á fyrri hluta þjóðveldisaldar en á Þingeyrum var síðan frá 1133–1551 rekið klaustur af reglu Benedikts, lengst allra klaustra á Íslandi. Eftir lokun klaustursins settust svo að á Þingeyrum umboðsmenn Danakonungs. Sáu þeir um klaustureignirnar, auk þess að starfa sem sýslumenn.
Árið 1812 komst jörðin síðan í einkaeigu þegar klausturhaldarinn og sýslumaðurinn Björn Ólsen keypti hana af Danakonungi. Hafði hann þá haft umsjón með Þingeyraklaustursumboði um átta ára skeið.
Uppgröftur á Þingeyrum hófst eftir margra ára undirbúning sumarið 2018 þegar fjárframlag var veitt til hans úr Fornminjasjóði. Undirbúningurinn, sem þá hafði staðið yfir frá árinu 2014, var fjármagnaður fyrir framlög frá Rannsóknasjóði, landeigendum, Heklu bílaumboði og CreditInfo.
Nýr áfangi hófst í rannsóknum á Þingeyrum vorið 2020 þegar fjárframlag var veitt til þeirra úr sjóðnum RÍM (Ritmenning íslenskra miðalda).
Á komandi árum verður lögð sérstök áhersla á að kanna þá ritmenningu sem einkenndi starfsemi Þingeyraklausturs, annars vegar með rannsókn á varðveittum handritum þaðan og hins vegar fornleifauppgrefti á rústum þess. Miðað er við að vinna við þennan áfanga muni standa til ársloka 2024.